,

[null]

Thorarensen lyf

Árið 1919 stofnaði Stefán Thorarensen apótekari Laugavegs apótek og heildsöluna Stefán Thorarensen hf. Stefán Thorarensen fékk leyfi til lyfsölu þann 25. mars 1919 með skjali frá konungi Danmerkur þar sem eftirfarandi texti kemur meðal annars fram:

Vjer Christian hinn Tíundi af guðs náð konungur Íslands og Danmerkur, Vinda og Gauta, hertogi í Slesvik, Holtsetalandi og Aldinborg, gjörum kunnugt að vjer samkvæmt þegnlegri umsókn og beiðni höfum leyft að cand. Pharm. Stefán Thorarensen megi setja á stofn lyfjabúð í austurhluta Reykjavíkurbæjar“

Laugavegs apótek var annað apótekið í Reykjavík, og hóf þá þegar innflutning fyrir sitt apótek. Fram að þessu höfðu aðdrættir til apóteka, héraðslækna og sjúkrahúsa nær eingöngu verið í gegnum danskar heildverslanir, en það fyrirkomulag leiddi til langs afgreiðslutíma og óþæginda vegna birgðahalds. Stefáni Thorarensen bárust því fljótlega óskir frá héraðslæknum og sjúkrastofnunum úti á landi um útvegun lyfja, lyfjagerðarefna og hjúkrunargagna, sem hann vildi verða við og leiddi til stofnunar heildsölufyrirtækisins.

Stefán Thorarensen var brautryðjandi og fylkti þar flokk fjölmargra athafnamanna sem á árunum eftir fyrri heimstyrjöldina færðu verslunina í hendur Íslendinga.
Fyrirtækið hóf fljótlega framleiðslu á svonefndum lögbókarlyfjum, en svo nefndust lyf sem tilgreind voru með uppskriftum í löggiltum handbókum. Til að byrja með var um að ræða töflur, pillur, skammta, mixtúrur, saftir og áburði


Árið 1930 var fyrsta vélknúna töflusláttarvélin keypt til landsins og fyrstu vélslegnu töflurnar slegnar í janúar 1931 og tíu árum síðar var stungulyfjaframleiðslan vélvædd. Árið 1980 var tekin í notkun fullkomin lyfjaverksmiðja (Toro) og fyrsta sérlyfið var skrásett árið 1981 og 1988 var sérlyfið Cardol skrásett erlendis og útflutningur hófst á því. Lyfjaverksmiðjan var seld árið 1991 og hún sameinuð lyfjaverksmiðjunni Delta hf. og lauk þar með þessum þætti í sögu fyrirtækisins.

Árið 1930 hóf Stefán Thorarensen hf. innflutning á lyfjum aðallega frá Danmörku en fljótlega náðust sambönd við framleiðendur lyfja, lyfjagerðarefna og hjúkrunarvara í öðrum löndum sem fyrirtækið gerðist umboðsaðili fyrir. Í kjölfarið óx fyrirtækið jafnt og þétt með ári hverju.

Árið 1995 var ákveðið að skilja á milli vörudreifingarinnar annars vegar og sölu- og markaðsstarfs hins vegar. Fyrirtækið beitti sér þá í samstarfi við önnur fyrirtæki fyrir stofnun sérstaks dreifingarfyrirtækis er tæki að sér lagerhald og dreifingu og hlaut fyrirtækið nafnið Lyfjadreifing, sem síðan árið 2005 breytti nafni sínu í Parlogis hf.

Árið 1996 sameinaðist Stefán Thorarensen fyrirtækinu Lyf hf., sem Guðmundur Hallgrímsson lyfjafræðingur stofnaði 1970 og starfað hafði með svipuðu sniði. Við sameininguna fékk fyrirtækið nafnið Thorarensen Lyf hf. Við stofnun Icepharma hf árið 2004 sem gerðist með sameiningu Thorarensen Lyf, Heilsuverslunar Íslands og Ísfarm var hjúkrunarvöruhluti Thorarensen Lyf fluttur yfir í Ísmed.